Böðin

Gufubað

Gufan er byggð yfir náttúrulegan hver sem hentar vel til baða. Rimlagólf er í gufuklefunum sem hleypir gufu hversins beint inn í gufuklefana og geta gestir því bæði heyrt og skynjað hverinn og einnig fundið gufuilminn og njóta þannig náttúrulegrar gufu beint úr iðrum jarðar. Hér er því um einstaka náttúruupplifun að ræða.

Hitastigið í gufunni er breytilegt eftir náttúrulegum kringumstæðum, frá 40°C til 50°C. Rakastigið er hátt. Í stað tveggja klefa áður hafa nú verið byggðir þrír klefar en þeir halda sömu stærð og gömlu klefarnir höfðu. Líkt og áður er hitanum stjórnað í klefunum einfaldlega með því að opna og loka gluggum og hurðum. Gufan á Laugarvatni hefur lengi verið þekkt fyrir áætlaðan lækningarmátt sinn, en í gufunni úr hvernum eru virk efni sem ekki finnast í venjulegum vatnsgufum.

Laugarnar

Laugarnar eru fjölbreytilegar, mismunandi heitar og misdjúpar en þær heita LAUGA, SÆLA og VISKA. Í þeim eru svæði til slökunar og hvíldar EN önnur svæði þar sem hreyfing er meiri bæði á vatni og fólki. Margbreytileg steinlistaverk listamannsins Erlu Þórarinsdóttur auka upplifun gesta þar sem vatnið og listformin bregða á leik. Í suðurenda lauganna er „heiti potturinn“ VISKA. Hann er staðsettur aðeins hærra í landslaginu. Þaðan er gott útsýni og því má njóta hinnar fögru íslensku náttúru um leið og unaðssemdir vatnsins nýtast fyrir líkama og sál.

Sánabað

Við hlið gufubaðsins er Ylur, sem er sánabað að finnskri fyrirmynd. Hitastig Yls er frá 80°C- 90°C en rakastig lægra en í gufubaðinu. Samspil röku gufunnar og þurru gufunnar í sánabaðinu eykur áhrif heimsóknar í Laugarvatn Fontana. 

Í finnskri menningu hafa sánuböð verið stór hluti af hvunndeginum í aldaraðir. Sánan er staður þar sem fjölskylda og vinir hittast, slaka á og endurnæra líkama og sál. 

Vatnið

Laugarvatn er stór hluti af baðupplifuninni. Hægt er að ganga frá laugunum út á bryggju og þaðan vaða út í frískandi vatnið. Heitar uppsprettur við ströndina gera það að verkum að yfirborðsvatnið getur verið hlýtt og notalegt við ströndina en kolnar þegar utar dregur. Vatnið er frábært tækifæri til þess að kæla sig niður milli heimsókna í gufurnar, slík víxlböð eru talin bæði heilsusamleg og styrkjandi.

Á ströndinni sjálfri er sandurinn víða heitur, en nokkra metra frá böðunum er sandurinn það heitur að hægt er að baka rúgbrauð í potti sem grafinn er niður.