Saga gufunnar

Flestir Íslendingar þekkja sögur af gufunni á Laugarvatni. Laugvetningar hófu að baða sig í gufu hversins árið 1929 þegar tveir klefar voru byggðir ofan á hvernum. Þessi hver gefur frá sér bæði mikinn hita og mikla gufu sem fyllir klefana í gegnum ristar á gólfi. Laugarvatn Fontana opnaði sumarið 2010 og eru gufuböðin enn á sínum stað sem hluti af hinu nýja svæði með bættri aðstöðu og þjónustu.

Vígðalaug

Fornar sagnir segja að sumir höfðingjar á Þingvöllum hafi ekki viljað skírast í köldu vatni Þingvalla árið 1000 heldur kosið heitar laugar að Laugarvatni. Ein þessara heitu lauga er Vígðalaug, sem liggur niður við vatnið.

Munnmæli herma að þegar lík Jóns Arasonar og sona hans hafi verið grafin upp í Skálholti hafi þau verið flutt til Laugarvatns og þvegin við Vígðulaug áður en þau voru flutt til Hóla til greftrunar. Austan við laugina eru sex steinar sem nefndir hafa verið Líkasteinar. Á þeim stóðu líkbörur þeirra feðga.